„Okkur líður illa því við gerðum svo góða hluti í fyrri hálfleik. Við skoruðum þrjú mörk og ég tel þetta hafa verið ein okkar besta frammistaða í vetur," sagði Nani eftir leikinn gegn FC Bayern í gær.
United vann leikinn 3-2 en það dugði ekki til því samanlögð úrslit voru 4-4 og þýska liðið fer áfram á útivallarmarki.
„Þeir voru örlítið heppnir því þegar við misstum mann af velli sköpuðust vandræði fyrir okkur. Liðið varð lakara fyrir vikið. Þessi brottvísun gerði muninn," sagði Nani sem var frábær í gær og skoraði tvö mörk.
„Að sjálfsögðu fer allur okkar kraftur það sem eftir er af tímabilinu í að reyna að vinna deildina."