„Upplýsingar sem FME sendi til Hollands komu frá bönkunum og voru einnig þær upplýsingar sem FME hafði aðgang að. Síðar kom í ljós að þær voru ekki réttar." Þetta segir Gunnar Andersen, forstjóri FME um ummæli fyrrverandi yfirmanns hollenska fjármálaeftirlitsins og seðlabanka, Arnolds Schilder.
Íslendingar hefðu logið að Hollendingum trekk í trekk þegar þeir óskuðu eftir upplýsingum um stöðu íslensku bankanna, misserin fyrir hrun. Schilder lét þessi orð falla við hollenska rannsóknarnefnd.
Gunnar Andersen segir að gögnin frá bönkunum hafi til að mynda verið ársskýrslur þeirra, milliuppgjör og skýrslur til FME.
„Síðan kemur í ljós, við fall bankanna, að staða þeirra var veik. Raunveruleikinn var ekki sá sem þeir sögðu."
Stefán Jóhann Stefánsson, upplýsingafulltrúi Seðlabankans, bendir á að í riti bankans, Fjármálastöðugleika, frá vorinu 2008, hafi viðvörunarljósin logað.
„Mikið umframframboð lausafjár í heiminum hefur þurrkast upp að miklu leyti og áhættuálag á vexti snarhækkað," segir meðal annars í ritinu.
„Ekki vitað til þess að neinir formlegir fundir hafi átt sér stað í Reykjavík eða Amsterdam á milli Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Hollands sumarið 2008," segir Stefán Jóhann.
Fulltrúar hollenska seðlabankans hafi verið hér á landi sumarið 2008 en ekki óskað eftir fundi með Seðlabanka Íslands.
Hann bætir því við hollenski seðlabankinn hafi hvorki beðið um fundi með þeim íslenska, fyrir né eftir fall Lehman Brothers bankans, 15. september 2008.