Hafrannsóknastofnun hefur endurmetið magn makríls út frá gögnum sem fengust í rannsóknaleiðangri í sumar. Endurmatið sýnir að meira var af makríl á rannsóknasvæðinu í kringum Ísland, Færeyjar og í Noregshafi en fyrra mat benti til.
Niðurstöður þeirra útreikninga sem nú liggja fyrir sýna að heildarmagn makríls á svæðinu sem leiðangurinn nær yfir er áætlað um 4,85 milljónir tonna, en fyrra matið var nokkuð lægra eða 4,46 milljónir tonna. Þá benda útreikningar til að um 1,1 milljón tonn makríls sé innan íslensku lögsögunnar.
Ástæða endurmatsins er sú að eldri útreikningar voru ekki bundnir við efnahagslögsögur, aðferðafræðin við útreikningana var ónákvæm og forsendur um stærð veiðarfæra skipanna var ekki rétt.
Skýrsla um þessa endurskoðuðu útreikninga hefur verið send sem viðauki við sameiginlega leiðangursskýrslu sem kom út fyrr í mánuðinum og verður hluti skýrslu Alþjóðahafrannsóknaráðsins sem fjallar um stofnmat á makríl. - shá