Fótbolti

Platini spáir að Messi sópi til sín verðlaunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lionel Messi, leikmaður Barcelona.
Lionel Messi, leikmaður Barcelona. Nordic Photos / AFP

Michel Platini, forseti Knattspyrnusambands Evrópu, spáir því að Argentínumaðurinn Lionel Messi muni sópa að sér verðlaunum á næstunni fyrir frammistöðu sína með Barcelona á árinu.

Þetta sagði hann á blaðamannafundi á Bernabeu, heimavelli Real Madrid - erkifjenda Barcelona. „Ég tel að sá leikmaður sem mér líkar best við þessa stundina er Argentínumaður sem spilar með Barcelona. Ég held að hann muni vinna öll verðlaun sem hann getur í lok ársins."

„Hann átti frábæru gengi að fagna á síðustu leiktíð, rétt eins og Cristiano Ronaldo þar áður. Ég held að eigi skilið að hljóta viðurkenningu fyrir það."

Tilkynnt verður þann 1. desember næstkomandi hver hlýtur Gullboltann sem France Football veitir knattspyrnumanni ársins í Evrópu ár hvert.

Þá er einnig fastlega búist við því að Messi verður einnig krýndur leikmaður ársins hjá FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×