Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segist eiga von á að sjá Manchester United beita svipaðri leikaðferð gegn Barcelona í úrslitaleik meistaradeildarinnar og liðið beitti í 0-0 jafnteflinu við Arsenal á Emirates á dögunum.
"Við vorum mikið með boltann í leiknum en United treysti mikið á skyndisóknir. Ég hugsa að þetta gæti orðið svipað á móti Barcelona. United býr vel að því að geta hvílt sína bestu leikmenn um helgina og haft þá fríska í úrslitaleiknum. Varnarleikur United getur sannarlega skipt sköpum og Chelsea náði að verjast vel gegn Barcelona með því að mæta þeim af hörku," sagði Wenger.