Hnefaleikamaðurinn Manny „Pac-Man" Pacquiao er bjartsýnn fyrir WBO-veltivigtar titilbardaga sinn gegn Miguel Cotto í Las Vegas á aðfararnótt sunnudags og kveðst aldrei hafa verið í betra formi en nú.
Pacquiao á góðar minningar frá MGM Grand-höllinni í Las Vegas þar sem hann bókstaflega niðurlægði Oscar De La Hoya í desember árið 2008 en Pacquiao á von á meiri mótspyrnu gegn Cotto og ætlar því að vera við öllu viðbúinn þegar í hringinn verður komið.
„Ég er búinn að kortleggja andstæðing minn það vel að ég þekki hann nú álíka mikið og ég þekki sjálfan mig. Ég hef annars aldrei verið í betra formi og er því hundrað prósent tilbúinn. Ég hef aldrei verið með þyngri högg og aldrei verið sneggri en ég er nú þannig að þetta verður frábær bardagi á milli tveggja góðra hnefaleikamanna," er haft eftir Pacquiao.