Strákarnir okkar tryggðu sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum með sigri á Svíum í gær. Um miðjan mánuðinn ræðst hvort þeir komast í lokakeppni HM en liðið mætir Makedóníu í tveimur leikjum.
Fyrri leikurinn verður í Makedóníu sunnudaginn 8. júní en sá síðari verður sunnudaginn 15. júní í Laugardalshöll. Miðasala á leikinn hér heima er farin af stað en fastlega má búast við fullu húsi.
Heimsmeistaramótið verður haldið í Króatíu í janúar en ef Ísland kemst þangað hefur liðið náð að komast í lokakeppni HM í tíu skipti af ellefu mögulegum síðan 1986.
Miðasalan á leikinn fer fram á vefsíðunni midi.is.