Gengi bréfa í SPRON og Existu hefur lækkað í Kauphöllinni í dag, annað viðskiptadaginn í röð á árinu. Félögin féllu bæði um sex prósent í gær. SPRON hefur það sem af er dags lækkað um rúmlega 2,5 prósent en Exista um rúmlega 1,5 prósent.
SPRON hefur ekki átt góðu gengi að fagna síðan það var skráð á markað seint í október. Upphafsgengi þess stóð í 18,9 krónum á hlut og var bankinn þá þegar talinn hátt metinn. Hann féll um 10 prósent á fyrsta degi. Gengið stendur nú í 8,4 krónum sem þýðir að það hefur fallið um 55 prósent frá fyrsta viðskiptadegi fyrir rúmum tveimur mánuðum.
Icelandic Group hefur hins vegar lækkað mest það síðan viðskipti hófust í dag, eða um tæp þrjú prósent.
Á sama tíma hefur gengið Færeyjabanka hækkað mest skráðra félaga, um 1,75 prósent. Bankinn lækkaði hins vegar mest í gær og fór í sitt lægsta gildi til þessa. Önnur félög sem hafa hækkað eru Marel og hinn færeyski Eik banki.
Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,38 prósent það sem af er viðskiptadagsins og stendur vísitalan í 6.121 stigum.