Enski boltinn

Torres: Liverpool getur unnið Real Madrid

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Torres fagnar marki með Liverpool.
Torres fagnar marki með Liverpool. Nordic Photos / AFP

Fernando Torres segir að hann sé handviss um að Liverpool muni slá Real Madrid úr Meistaradeild Evrópu og komast þannig í fjórðungsúrslit keppninnar.

„Við gerum okkur grein fyrir því að þetta verða mjög erfiðir leikir," skrifar Torres á heimasíðu sína. „Ég vil ekki segja að annað liðið sé líklegra til sigurs en í mínum huga er ég viss um að við komumst áfram í næstu umferð."

Torres er fyrrum leikmaður Atletico Madrid og þekkir því vel til Real Madrid. Hann sagði þó að hann hafi sjálfur yfirleitt átt erfitt uppdráttar gegn Real.

„Þegar ég spilaði á Spáni skoraði ég mörgum sinnum í leikjum gegn Barcelona en fannst erfiðara að spila gegn Real Madrid."

Hann sagði það einnig pínulítið sorglegt að þessu stórmerkilega ári í lífi hans væri að ljúka. Hann fór á kostum með Liverpool síðastliðinn vetur og varð svo Evrópumeistari með landsliði Spánar í sumar. Hann hefur hins vegar lítið getað spilað að undanförnu vegna meiðsla.

„Fyrstu níu mánuðir ársins voru ótrúlegir. En jafnvel þótt ég hafi ekki getað spilað reglulega í haust vegna meiðslanna þá var mér sýndur mikill heiður með hinum ýmsu viðurkenningum. Ég hef áður sagt að þetta ár hefur verið mitt besta hingað til sem knattspyrnumaður."

„Ég vona að við getum sagt það sama í lok næsta árs. Ég vonast til að sleppa við meiðsli og að við vinnum í ensku úrvalsdeildinni. Það er draumur allra hjá Liverpool."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×