Reynir Traustason, annar af ritstjórum DV, segist vera að íhuga réttarstöðu sína gagnvart Ríkissjónvarpinu og Jóni Bjarka Magnússyni, fyrrum blaðamanni á DV, í kjölfar þess að einkasamtal Reynis og Jóns var birt í Kastljósi fyrr í kvöld.
Á upptökunni má heyra þegar Reynir útskýrir hvers vegna frétt Jóns hafi ekki verið birt í blaðinu. Fréttin fjallaði um að Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóra Landsbankans, væri að koma á fót ráðgjafarfyrirtæki í húsnæði Landsbankans og að hann vonaðist eftir verkefnum frá bankanum. Reynir segir í upptökunni að stórir aðilar hafi komið í veg fyrir birtingu fréttarinnar á krafti fjármagns.
„Þetta er trúnaðarsamtal mitt við undirmann sem hann tekur upp gegn minni vitneskju og þessu er útvarpað yfir landið," sagði Reynir í samtali við Vísi. „Ég er undrandi að fjölmiðilinn skuli birta þetta. Það mun verða skoðað mjög gaumgæfilega hvernig ég bregst við því.“
Ætlar að halda áfram sem ritstjóri
Reynir sagðist ekki hafa íhugað láta af störfum sem ritstjóri blaðsins vegna málsins. „Þetta mál er ekki efni til þess í sjálfu sér að grípa til einhverja drastískra ákvörðunar. Ég hef alltaf verið til í að víkja ef ég met það svo að þetta mál skaði blaðið með einhverjum hætti. Ég met það ekki þannig að svo stöddu.“
Fékk agressívar meldingar
Ritstjórinn vildi ekki staðfesta að Björgólfur Guðmundsson, fyrrum stjórnarformaður, hafi staðið persónulega í ógnunum gagnvart blaðinu. „Einhverjir muna að Björgólfur vildi eitt sinn kaupa DV fyrir 500 milljónir og leggja blaðið niður.“ Reynir sagði að DV ætti marga óvini og hann hafi fengið símtöl og „agressívar meldingar.“ Enginn geti sakað ritstjóra blaðsins um að hafa haldið til baka alvöru fréttum.
Reynir sagði að þetta tiltekna mál og fréttin um Sigurjón hafi hafi verið smámál. „Fréttin var búin að koma fram á Eyjunni og okkur vantaði meira kjöt á beinin.“ Til að mynda viðbrögð frá bankanum við þeim ásökunum sem fram komu í fréttinni.