Lið Hamars er á toppi Iceland Express deildar kvenna eftir leiki kvöldsins. Liðið vann þriðja sigur sinn í röð í deildinni með því að gjörsigra Fjölni 95-34 í kvöld.
Fanney Guðmundsdóttir skoraði 19 stig og hirti 11 fráköst fyrir Hamar í kvöld, Lakiste Barkus skoraði 17 stig og þær Dúfa Ásbjörnsdóttir og Jóhanna Sveinsdóttir 13 hvor. Eva Emilsdóttir skoraði 13 stig fyrir Fjölni og Birna Eiríksdóttir 10.
Haukar lögðu Snæfell örugglega 80-63 þar sem Slavica Dimovska fór fyrir Haukaliðinu með 25 stig og 12 stoðsendingar og Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 22 stig. Sara Andrésdóttir skoraði mest í liði Snæfells, 16 stig.
Grindavík vann nauman sigur á Val 46-44 þar sem Pétrúnella Skúladóttir tryggði heimastúlkum sigurinn þegar 6 sekúndur voru eftir af leiknum. Þetta var fyrsta tap Valsliðsins í vetur.
Íslandsmeistarar Keflavíkur lögðu KR 72-60. Birna Valgarðsdóttir fór á kostum hjá Keflavík með 29 stig og 10 fráköst, en Hildur Sigurðardóttir skoraði 18 stig hjá KR.
Hamar er sem fyrr segir á toppi deildarinnar með 6 stig eftir 3 umferðir en næst koma Haukar, Grindavík, Keflavík og Valur - öll með 4 stig. KR hefur 2 stig og Snæfell og Fjölnir eru á botninum án stiga.