Viðskipti innlent

FL Group selur í Bang & Olufsen

FL Group hefur selt allan hlut sinn í danska fyrirtækinu Bang & Olufsen A/S, sem svaraði til 10,76 prósenta af hlutafé fyrirtækisins. Kaupverð nemur 10,2 milljörðum króna en kaupendur eru hópur danskra og alþjóðlegra stofnanafjárfesta.

Í tilkynningu frá FL Group kemur fram að félagið hafi verið hluthafi í B&O frá því í ársbyrjun 2006.

Þá segir ennfremur að salan sé í fullu samræmi við stefnu FL Group og með henni aukast möguleikar félagsins til að takast á við ný verkefni.

Haft er eftir Hannesi Smárasyni, forstjóra FL Group, að fjárfestingastefna FL Group einkennist af miklum sveigjanleika og stöðugri leit að fjárfestingakostum. „Sem hluthafi í B&O, leiðandi fyrirtæki á sínu sviði í heiminum, hefur FL Group öðlast mikilsverða reynslu og við óskum B&O velfarnaðar í framtíðinni. Við teljum hinsvegar rétt nú, í þágu okkar hluthafa að kanna nýjar slóðir," segir hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×