Viðskipti innlent

Fagfjárfestar sitja að hlutafjárútboði í Føroya Banka

Fagfjárfestum og öðrum stórum fjárfestum býðst að kaupa um 80 prósent þess hlutafjár sem færeyska landsstjórnin ætlar að selja í hlutafjárútboði Føroya Banka sem hófst í þremur löndum á mánudaginn. Almenningur og aðrir smærri fjárfestar fá því um fimmtungsskerf í sinn hlut en íslenskum fjárfestum stendur til boða að kaupa hlutabréf í útboðinu í gegnum Landsbankann.

Jakob Fink, verkefnastjóri hjá Handelsbanken Capital Markets í Kaupmannahöfn, segir það alvanalegt fyrirkomulag við frumskráningar að meira falli í skaut fagfjárfestum en almennum fjárfestum. „Að jafnaði fá almennir fjárfestar um 10-15 prósent í sinn hlut við frumútboð í Vestur-Evrópu og Skandinavíu. Þannig að 20 prósent er því nokkru meira en venjan er."

Færeyska ríkið hyggst selja allt að 6,6 milljónir hluta eða um 66,6 prósent hlutafjár. Heildarvirði útboðsins gæti því orðið allt að 14,3 milljarðar íslenskra króna miðað við að útboðsgengi verði 189 danskar krónur að lokinni áskriftasöfnun (book-building).

Tæpir 2,9 milljarðar koma því til skiptanna hjá almennum fjárfestum í þremur löndum ef allt hlutafé Føroya Banka selst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×