Frakkland er fullt viðskiptatækifæra sem bíða þess að verða gripin. Þetta var rauði þráðurinn í máli flestra þeirra er tóku til máls á ráðstefnu tileinkaðri viðskiptum milli Íslands og Frakklands sem fram fór á Hótel Nordica í gær. Hún var liður í menningarhátíðinni „Pourquoi Pas? Franskt vor á Íslandi" sem nú stendur sem hæst.
Frú Nicole Michelangeli, sendiherra Frakka á Íslandi, fór með opnunarræðu ráðstefnunnar. Hún lýsti ánægju sinni með hversu mjög viðskipti milli Frakklands og Íslands hafa aukist á undanförnum tveimur árum. Þá biðlaði hún til íslenskra fjárfesta að beina alþjóðlegri útrás sinni í enn ríkari mæli til Frakklands. Landið hafi svo margt annað að bjóða heldur en bara croissant og ilmvötn.