Þetta viðhorf helgast mögulega af því að mikil umræða um klám hefur átt sér stað í samfélagin og sú umræða virðist hafa klofið stóran hóp fólks í fylkingar með hugmyndafræðilega gjá á milli sín. Skoðanaskipti milli fylkinganna verða því miður oft heiftúðug og stundum er gripið til óvandaðra meðala, til dæmis að kalla Píkusögur klám.
V-dagssamtökin bera ábyrgð á Píkusögum og vilja ítreka hvaða baráttu leikritið þjónar, ekki síst út af þeim fjölmörgu konum sem hafa ljáð verkinu mikilvæga rödd sína en eru nú vændar um að hafa tekið þátt í klámi.
Píkusögur eru baráttutæki gegn ofbeldi á konum þar sem er kafað undir yfirborðið og vísað til þeirra duldu fordóma sem halda aftur af konum. Eve Ensler, höfundur leikritsins, vill að konur og karlar standi jafnfætis hvað orðræðu um kynlíf snertir og í þeim tilgangi leitast hún við að varpa ljósi á muninn milli kynjanna í þeim efnum.
Leikritið á að auðvelda konum að orða það sem áður þótti ósæmandi að konur segðu og rjúfa þannig höft tungumálsins. Aðstöðumunur kynjanna í þeim efnum er mikill og hefur víðtækar afleiðingar sem ekki má gera lítið úr. Margar konur blygðast sín til dæmis of mikið til að geta sagt frá kynferðisofbeldi sem þær hafa orðið fyrir. Í leikritinu eru senur sem vafalítið fá einhverja til að roðna, meðal annars tæpitungulausar lýsingar á lystisemdum kynlífs. Þær þjóna hins vegar þeim tilgangi að koma þeim skilaboðum áleiðis að konur eiga og mega njóta kynlífs.

Sá sem veltir leikritinu og tilgangi þess fyrir sér hlýtur að gera sér grein fyrir því að Píkusögur hafa ekkert að gera með klám.
Höfundar sitja í stjórn V-dagssamtakanna.