Handknattleiksmaðurinn Guðjón Valur Sigurðsson var nú rétt í þessu valinn íþróttamaður ársins. Þetta er í fyrsta sinn sem Guðjón Valur verður þessa heiðurs aðnjótandi. Knattspyrnumaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen, sigurvegari síðustu tveggja ára, varð í öðru sæti og handknattleiksmaðurinn Ólafur Stefánsson þriðji.
Guðjón Valur hlaut alls 405 stig í kjörinu en Eiður Smári 333. Þeir tveir höfðu töluverða yfirburði í kjörinu en Ólafur hlaut 188 stig.
Guðjón Valur átti frábært tímabil með liði sínu Gummersbach í þýsku úrvalsdeildinni í ár og var meðal annars markahæsti leikmaður deildarinnar á síðustu leiktíð. Guðjón Valur var einnig valinn besti leikmaður deildarinnar af leikmönnum hennar. Þá hefur hann spilað frábærlega fyrir íslenska landsliðið í ár og var í hópi betri leikmanna þess á Evrópumótinu sem fram fór í febrúar sl.
Það eru samtök íþróttafréttamanna sem standa að kjörinu en þetta er í 51. skipti sem verðlaunin eru veitt. Vilhjálmur Einarsson hreppti styttuna fyrstur allra árið 1956 en Guðjón Valur tók áðan á móti nýrri og glæsilegri styttu sem fylgja mun sæmdarheitinu næstu áratugi.
Guðjón gaf verðlaunaféð, hálfa milljón króna, til samtakanna Umhyggja en þau styrkja við bakið á fjölskyldum langveikra barna.