Viðskipti innlent

Sparisjóðabankanum breytt í Icebank

Nýtt merki Icebank.
Nýtt merki Icebank.

Sparisjóðabanki Íslands hefur fengið nýtt nafn og mun eftirleiðis heita Icebank. Stefnt er að því að fá nýja hluthafa að bankanum og skrá hlutbréf hans í Kauphöll Íslands.

Nafnabreytingin verður formlega staðfest á hluthafafundi bankans 30. nóvember næstkomandi.

Icebank er í eigu 24 sparisjóða en fjórir þeirra eiga meira en 10 prósenta hlut í bankanum. Það eru sparisjóðirnir Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis (SPRON), Sparisjóður Hafnarfjarðar (SPH), Sparisjóður vélstjóra (SPV) og Sparisjóður Keflavíkur (SPKef).

Í tilkynningu frá bankanum segir að nafnið Icebank sé ekki nýtt af nálinni. Það hafi verið notað gagnvart erlendum viðskiptavinum Sparisjóðabankans frá stofnun hans árið 1986 auk þess sem vefslóð bankans er www.icebank.is.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að áherslum í starfsemi bankans hafi sömuleiðis verið breytt. Bankinn verður framvegis öflugur banki á fyrirtækjamarkaði með áherslu á langtímalán og gjaldeyris- og afleiðuviðskipti við fyrirtæki, fagfjárfesta og aðra umsvifamikla viðskiptavini.

Hann muni áfram veita sparisjóðunum margvíslega þjónustu en leggja aukna áherslu á að fylgja eftir íslenskum félögum í útrás með ráðgjöf, lánveitingum og þátttöku í fjárfestingum samhlið aþví að taka þátt í sambankalánum og sérhæfðum lánaverkefnum innanlands og erlendis.

Icebank.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×