Innlent

Milljarðar bætast við markaðsvirði Exista

Fyrirtækið Exista var tekið til skráningar í Kauphöllinni í morgun. Þetta er stærsta nýskráning í Kauphöllinni en markaðsvirði félagsins var um 230 milljarðar. Milljarðar hafa bæst við markaðsvirðið fram að hádegi vegna gengishækkunar í fyrstu viðskiptum.

Exista er risastórt félag sem á tryggingarfélsgið VÍS og einnig Lýsingu. En auk þess er Exista kjölfestufjárfestir í Símanum, Bakkavör, og KB-Banka. Miðað við útboðsgengið var markaðsviðri félagsins 230 milljarðar þegar opnað var fyrir viðskipti í morgun klukkan tíu.

Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista, segir félaginu hafa verið skipt upp í tvennt, annars vegar rekstrareiningar með eignaleigu og tryggingum og sjóðsbók og hins vegar fjárfestingareiningu. Fyrrnefnda þáttinn eigi að stækka með því að sækja út til Evrópu. Sama gildi um síðari þáttinni og leitað verði að félögum á Evrópumarkaði með gott fjárflæði og stjórnendur. Það taki alltaf tíma að finna slík fyrirtæki og Exista muni ekki flýta sér í þessum verkefnum.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, bendir á að erlend fjármunaeign Íslendinga í atvinnulífi sé orðin miklu meiri en í hinum norrænu ríkjunum þegar tekið sé tillit til stærðar hagkerfisins. Fyrir aðeins fimm árum hafi Íslendingar verið langminnstir í þessu samhengi þannig að það hafi verið mikill gangur í kauphallarviðskiptum og útrásinni á síðustu misserum og árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×