Viðskipti innlent

Samdráttur í smásölu

Velta í dagvöruverslun dróst saman um 0,6 prósent í júlí miðað við sama mánuð í fyrra, miðað við fast verðlag. Telst það til verulegra tíðinda að í fyrsta skipti í langan tíma mælist samdráttur í dagvöruveltu á föstu verði. Rannsóknaseturs verslunarinnar við Bifröst (RSV) sem gerði útreikningana fyrir Samtök verslunar og þjónustu segir þetta glöggt merki þess að töluvert sé farið að draga úr þenslu í hagkerfinu.

Þá kemur fram í útreikningunum að velta í hlaupandi verðlagi hækkaði um 11,5 prósent á milli ára en verð á dagvöru hækkaði enn meira, eða um 12,2 prósent. Miðað við árstíðar- og dagatalsleiðrétta vísitölu er samdráttur um 3,9 prósent í dagvöruverslun og 10,3 prósent í áfengissölu milli júní og júlí. Tímasetning verslunarmannahelgarinnar, sem var tiltölulega seint í ár samanborið við í fyrra, skýrir að hluta þennan samdrátt, sérstaklega í sölu á áfengi, að sögn RSV.

RSV segir ennfremur að hafa verði þann fyrirvara í huga að tímasetning verslunarmannahelgarinnar flækir samanburðinn. Í ár var frídagur verslunarmanna þann 7. ágúst þannig að mest öll verslun sem tengist helginni telst með ágústmánuði. Á síðasta ári var frídagur verslunarmanna þann 1. ágúst og því taldist öll verslun fyrir verslunarmannahelgina til júlímánaðar. Ekki sé þó líklegt að þessi áhrif breyti niðurstöðunum í grundvallaratriðum í tilfelli dagvöruverslunar. Á hinn bóginn er hægt að skýra gríðarlegan samdrátt sem mælist nú í áfengisveltu að lang mestu leyti með ofangreindum dagatalsáhrifum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×