Lánshæfismatsfyrirtækið Fitch Ratings hefur staðfest lánshæfiseinkunnir bæði Kaupþings banka og Glitnis banka. Einkunnn Kaupþings er sögð endurspegla sterka stöðu bankans og einkunn Glitnis góða hagnaðarmyndun í rekstri.
Kaupþings banki er með langtímaeinkunnina A, skammtímaeinkunn F1, óháð einkunn er B/C og stuðningseinkunn 2. Horfur lánshæfiseinkunna Kaupþings banka hf. eru sagðar stöðugar.
"Lánshæfiseinkunn Fitch endurspeglar sterka stöðu Kaupþings banka sem eins af þremur leiðandi bönkum á Íslandi, auk þess sem Kaupþing banki hefur undanfarin fjögur ár byggt upp fjölþætta tekju og eignastofna með yfirtökum á erlendum fjármálafyrirtækjum. Lánshæfiseinkunnin endurspeglar einnig mikil gæði eigna og viðunandi arðsemi undirliggjandi rekstrar," segir í tilkynningu Kauphallar Íslands.
Glitnir er svo með staðfestar lánshæfiseinkunnir: Langtímaeinkunn A, skammtímaeinkunn F1, óháð einkunn B/C og stuðningseinkunn 2. Horfur lánshæfiseinkunna Glitnis eru einnig stöðugar.
"Samkvæmt tilkynningu frá Fitch Ratings endurspeglar einkunnin góða hagnaðarmyndun í rekstri Glitnis og tekjudreifing, traust eignasafn og sterka eiginfjárstöðu. Einnig er tekið tillit til hve mikið bankinn reiðir sig á fjármögnun á heildsölumarkaði, mögulegrar áhættu vegna samþættingar í starfseminni vegna kaupa á fyrirtækjum að undanförnu og þeirra áhrifa sem sveiflur íslensku krónunnar og breytingar í íslensku efnahagslífi geta haft á rekstur bankans," segir Kauphöllin.