Viðskipti innlent

Endurfjármögnunarþörfin tryggð

Glitnir hefur á þessu ári gefið út skuldabréf fyrir 3 milljarða evrur, jafnvirði tæpra 272 milljarða íslenskra króna, og með því tryggt endurfjármögnun bankans fyrir næsta ár.

Í tilkynningu frá bankanum til Kauphallar Íslands kemur fram að skuldir Glitnis (móðurfélagsins) með gjalddaga á næsta ári hafi verið um 2,7 milljarðar evra, um 242 milljarðar króna, en vegna sterkrar lausafjárstöðu undanfarið hefur bankinn keypt til baka hluta þeirra skuldabréfa. Eigi bankinn nú lausafé til að mæta öllum gjalddögum skulda á næsta ári.

Þá segir að Glitnir hafi lagt ríka áherslu á að styrkja lausafjárstöðu bankans á þessu ári til að tryggja endurfjármögnun næsta árs og hafi vinnan gengið mjög vel við óstöðugar markaðsaðstæður.

Handbært fé Glitnis um þessar mundir nemur um 2,5 milljörðum evra, 225 milljörðum króna, sem jafngildir 111 prósentum af fjármögnunarþörf næstu sex mánaða. Handbært fé og auðseljanlegar fjáreignir nema 130 prósentum af fjármögnunarþörf næstu 12 mánaða. Endurspegli þessi hlutföll sterka lausafjárstöðu bankans um þessar mundir, að því er segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Tómasi Kristjánssyni, framkvæmdastjóra Fjármálasviðs Glitnis, að eftir að bankinn kynnti niðurstöður annars ársfjórðungs hafi orðið vart við verulega aukinn áhuga fjárfesta. Sé ljóst að þau lánakjör sem bankinn njóti um þessar mundir séu áhugaverð fyrir fjárfesta, sérstaklega þá sem þekkja vel til Glitnis.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×