Kögun hf., dótturfélag Dagsbrúnar, tapaði 429 milljónum króna á fyrri helmingi ársins. Á sama tímabili í fyrra skilaði fyrirtækið 223 milljóna króna hagnaði. Rekstur samstæðunnar er að mestu í samræmi við áætlanir stjórnenda að undanskildum fjármagnsliðum en 9,5 prósenta veiking krónunnar á tímabilinu hafði veruleg áhrif á fjármagnsliði fyrirtækisins.
Í tilkynningu frá Kögun kemur fram að rekstrartekjur hafi aukist um rúma 3,6 milljarða króna eða 42,6 prósent frá sama tíma í fyrra.
Þá er afkoma hugbúnaðarhluta samstæðunnar í samræmi við áætlanir en velta og afkoma vélbúnaðarhluta hennar undir áætlunum.
Í samstæðureikningi félagsins og dótturfélaga þess eru Verk- og kerfisfræðistofunnar hf., Kögurness ehf., Ax hugbúnaðarhúss hf., Hugar hf., Landsteina Strengs hf., Skýrr hf., Teymi hf. ,Opin Kerfi Group Holding ehf., Hands ASA í Noregi og SCS Inc. í Bandaríkjunum.
„Kögun hf. vinnur áfram eftir því markmiði sínu að vaxa umtalsvert á næstu árum, einkum á erlendum mörkuðum. Þær fjárfestingar sem ráðist var í undir lok síðasta árs hafa nú þegar náð að uppfylla yfirlýst markmið stjórnenda um að stækka hugbúnaðarhluta samstæðunnar um 30-50 prósent á árinu 2006. Áfram er unnið eftir þeirri stefnu að verða eitt af stærstu fyrirtækjum heims á svið Microsoft Dynamics viðskiptalausna," segir í tilkynningunni.