Spænsk vefsíða helguð knattspyrnuliði Barcelona greinir frá því í dag að Frank Rijkaard geti teflt fram sínu sterkasta liði í hinum árlega leik um meistara meistaranna á Spáni, því spænska knattspyrnusambandið sé búið að semja við það íslenska að flýta fyrirhuguðum landsleik þjóðanna hér á landi þann 16. ágúst.
Barcelona mætir liði Sevilla í viðureign deildar- og bikarmeistaranna þann 17. ágúst, en landsleikur Íslendinga og Spánverja er settur á daginn þar á undan, svo ljóst er að landsliðsfyrirliðinn Eiður Smári Guðjohnsen og félagar hans í Barcelona og spænska landsliðinu, muni ekki spila tvo daga í röð. Á spænsku netsíðunni er því haldið fram að íslenska- og spænska knattspyrnusambandið hafi þegar komist að niðurstöðu um að flýta leiknum og hafa hann á þriðjudeginum 15. ágúst.
Knattspyrnusambandi Íslands vísar þessum fréttum á bug, en staðfestir að viðræður séu í gangi um að flýta hugsanlega leiknum og að niðurstöðu sé að vænta í málinu fljótlega.