Sport

Valsstelpur unnu toppslaginn stórt

Valsstelpur hafa þegar skorað 26 mörk í fjórum leikjum í Landsbankadeildinni í sumar.
Valsstelpur hafa þegar skorað 26 mörk í fjórum leikjum í Landsbankadeildinni í sumar.

Valur vann toppslag Landsbankadeild kvenna gegn Breiðabliki 4-1 á Valbjarnarvelli í dag og er því áfram með fullt hús á toppnum. Þetta er fyrsta tap Breiðabliks í deildinni síðan í september 2004 en Blikastúlkur höfðu fyrir leikinn spilað 17 deildarleiki í röð án þess að tapa. Rakel Logadóttir skoraði tvö mörk fyrir Val og þær Málfríður Sigurðardóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir skoruðu hin mörkin.

Rakel Logadóttir skoraði tvö fyrstu mörk leiksins, það fyrra eftir góðan undirbúning Violu Odebrecht sem er að leika sinn fyrsta leik með Valsliðinu og það seinna eftir sendingu Dóru Maríu Lárusdóttur. Greta Mjöll Samúelsdóttir minnkaði muninn fyrir hálfleik en í seinni hálfleik skallaði Málfríður Sigurðardóttir glæsilega inn hornspyrnu Margrétar Láru Viðarsdóttur sem fær síðan síðasta markið skráð á sig eftir að Thelma Ýr Gylfadóttir hafði skotið í hana og inn.

Breiðablik vann alla leikina við Val í fyrra og vann tvöfalt og nú er að sjá hvort komið sé að Valskonum að vinna þessa leiki við Blika sem skipta að því virðist öllu máli um hvaða lið hampar titlinum í íslenska kvennafótboltanum.

 

Valur-Breiðablik 4-1 (2-1)

1-0 Rakel Logadóttir (13.)

2-0 Rakel Logadóttir (30.)

2-1 Greta Mjöll Samúelsdóttir (45.)

3-1 Málfríður Sigurðardóttir (58.)

4-1 Margrét Lára Viðarsdóttir (88.).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×