Innlent

Þórólfur Árnason ráðinn forstjóri Skýrr hf.

Þórólfur Árnason, fyrrverandi borgarstjóri hefur verið ráðinn í starf forstjóra Skýrr hf. Þórólfur er vélaverkfræðingur frá Háskóla Íslands og lauk framhaldsnámi í iðnaðar- og rekstrarverkfræði frá Danmarks Tekniske Højskole í Kaupmannahöfn. Þórólfur hefur víðtæka reynslu af markaðsmálum og stjórnun.

Hann var framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá Marel í sex ár og sama starfi gegndi hann síðar hjá Olíufélaginu hf. Þórólfur varð fyrsti forstjóri Tals hf., síðar borgarstjóri í Reykjavík og svo forstjóri Icelandic Group hf. árið 2005. Þá hefur hann setið í stjórnum nærri tuttugu fyrirtækja og stofnana. Þórólfur er giftur Margréti Baldursdóttur og eiga þau tvö börn.

Skýrr hf. er eitt stærsta fyrirtæki landsins á sviði upplýsingatækni, með 200 starfsmenn og liðlega 2.200 kröfuharða viðskiptavini. Meðal samstarfsaðila Skýrr hf. í þekkingariðnaði eru Microsoft, Oracle, VeriSign og Business Objects. Starfsemi fyrirtækisins skiptist í hugbúnaðarlausnir, rekstrarlausnir og fjarskiptalausnir. Skýrr hf. er Microsoft Gold Certified Partner og vottað samkvæmt alþjóðlega gæða- og öryggisstaðlinum ISO 9001. EJS er dótturfélag Skýrr hf.

Skýrr er dótturfélag Kögunar hf., sem er í meirihlutaeigu Dagsbrúnar hf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×