Viðskipti innlent

Aukið tap hjá Atlantic Petrolium

Færeyska olíufélagið Atlantic Petrolium, sem skráð er í Kauphöll Íslands, tapaði tæpum 6,4 milljónum danskra króna eða rúmum 77 milljónum íslenskra króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er um ellefu sinnum meira tap en á sama tíma fyrir ári.

Þá nam taprekstur á öðrum ársfjórðungi rúmum 4 milljónum danskra króna eða um 49 milljónum íslenskra króna. Á sama tíma fyrir ári nam tap á fjórðungnum 533 þúsundum danskra króna eða rúmum 6,4 milljónum íslenskra króna.

Haft er eftir Wilhelm Petersen, forstjóra Atlantic Petrolium, í tilkynningu frá félaginu til Kauphallar Íslands að tapið hafi verið meira en reiknað hafi verið með en rekstur félagsins hafi verið tryggður með hlutafjárútboði í júní á þessu ári.

Framkvæmdir félagsins eru á áætlun en reiknað er með að byrjað verði að olíuvinnsla hefjist á Chestnutsvæðinu á öðrum ársfjórðungi á næsta ári en á Ettricksvæðinu, sem er í lögsögu Bretlands, í upphafi 2008.

Þá mun standa til að skrá Atlantic Petrolium í Kauphöllina í Kaupmannahöfn síðar á þessu ári jafnframt því sem það verði áfram skráð í Kauphöllinni hér á landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×