Minni þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, mun aðstoða lögregluna í Reykjavík við umferðareftirlit um allt land um verslunarmannahelgina. Er þetta samstarfsverkefni Landhelgisgæslunnar, lögreglustjórans í Reykjavík og Ríkislögreglustjóra.
„Þyrlan mun fljúga um landið með tvo lögreglumenn innanborðs sem fylgjast munu með akstri á þjóðvegum landsins,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar í Reykjavík. „Þetta er virkt umferðareftirlit úr lofti. Ef lögreglumennirnir verða vitni að vítaverðum framúrakstri eða ofsaakstri einhvers konar, munu þeir hafa samband við næsta lögreglubíl sem hefur þá afskipti af viðkomandi ökumanni.“ Lögreglan í Reykjavík herti umferðareftirlit við helstu umferðaræðarnar út úr borginni í gær.
Að sögn Guðbrands lá straumur ferðamanna um Vesturlandsveginn. Að hans sögn byrjaði umferðin úr höfuðborginni seinna en venjulega, enda hellirigndi á Reykjavíkursvæðinu í gærdag.