Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fékk tilkynningu um það um hádegið í gær að maður væri á sundi mitt í Grafarvogi, og fylgdi það sögunni að hann væri nánast á bólakafi í sjónum.
Slökkviliðið sendi allan tiltækan mannskap á staðinn, kafarabíl ásamt dælu- og sjúkrabílum. Þegar bjargvættina bar að kom í ljós að maðurinn var alls ekki á sundi, heldur á göngu í klofstígvélum og var þar að auki nærri þurr enda háfjara í voginum.
Ekki liggur ljóst fyrir hvað manninum gekk til en hann hélt göngunni áfram að loknu stuttu spjalli við lögreglu.