Erlent

Skall til jarðar skömmu eftir flugtak

Skammt frá slysstaðnum Margir ættingjar og vinir þeirra sem fórust komu fljótt að slysstaðnum, sem var skammt frá flugvellinum.
Skammt frá slysstaðnum Margir ættingjar og vinir þeirra sem fórust komu fljótt að slysstaðnum, sem var skammt frá flugvellinum. MYND/AP

Fjörutíu og fimm manns fórust með pakistanskri farþegaflugvél sem hrapaði til jarðar stuttu eftir flugtak frá flugvelli í borginni Multan í austurhluta Pakistans.

Flugvélin, sem var af gerðinni Fokker F-27, brotlenti á hveitiakri skammt fyrir utan borgina. Ekki er vitað um orsök slyssins, en vélin hafði snúist í hringi í loftinu áður en hún skall til jarðar þar sem hún varð strax alelda.

Fjögurra manna áhöfn vélarinnar fórst ásamt 41 farþega, pakistanskir að uppruna. Meðal farþeganna voru tveir dómarar við hæstarétt í Lahore og yfirmaður ríkisrekins háskóla í Multan. Ein flugfreyja, sem var lifandi þegar fólk kom að slysstaðnum, lést á sjúkrahúsi skömmu síðar.

Vélin var í innanlandsflugi og var ferðinni heitið til Lahore, héraðshöfuðborgar í Punjab, sem er hérað í austanverðu Pakistan.

„Það varð gríðarmikil sprenging eftir að vélin skall til jarðar,“ sagði Mohammed Nadeem, skartgripasali sem býr skammt frá slysstaðnum.

Flugvélin hefur verið í notkun frá því árið 1979 og hefur nokkrum sinnum þurft að nauðlenda henni á síðustu árum. Ekkert benti til þess að hún hefði farist af völdum hermdarverka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×