Erlent

Hættu við 45 dögum áður

Yfirvöldum í Bandaríkjunum bárust upplýsingar um að hryðjuverkasamtökin al-Kaída hefðu í hyggju að sleppa banvænu gasi í neðanjarðarlestakerfi New York árið 2003, en hætt hafi verið við árásina 45 dögum áður en láta átti til skarar skríða. Þetta kemur fram í bókarútdrætti sem tímaritið Time birti nýlega á vef sínum.

Uppljóstrari, sem var í nánu sambandi við leiðtoga hryðjuverkasamtakanna, sagði að útsendarar þeirra hefðu ætlað að nota lítið tæki til að losa vetnisblásýru í mörgum jarðlestavögnum.

Það var aðstoðarmaður Osama Bin Laden, Ayman al-Zawahri, sem lét hætta við árásina í janúar árið 2003 þrátt fyrir að líkur segðu að dauðsföll í árásinni yrðu að minnsta kosti jafn mörg og í árásinni 11. september 2001. Yfirvöld í Bandaríkjunum höfðu fundið gögn um tækið sem átti að nota á tölvu manns sem handtekinn var í febrúar 2003, og hafi það líklegast orðið til þess að hætt var við allt saman.

Talsmaður lögreglunnar í New York segir að þeir hafi vitað af þessari yfirvofandi árás og verið búnir að gera viðeigandi ráðstafanir. Bandaríska alríkislögreglan, FBI, vildi ekki staðfesta þessar upplýsingar í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×