Erlent

Engar refsiaðgerðir í bili

Fídel Kastró Kastró er ekki vinsæll meðal ráðamanna fyrrverandi austantjaldslanda í Evrópu.
Fídel Kastró Kastró er ekki vinsæll meðal ráðamanna fyrrverandi austantjaldslanda í Evrópu. MYND/AFP

Evrópusambandið hefur langtímaáætlun um lýðræðisþróun á Kúbu í smíðum og lýstu utanríkisráðherrar aðildarríkjanna 25 yfir djúpstæðum áhyggjum af bágri stöðu mannréttindamála í eyríkinu á mánudag.

Ríkisstjórnin í Havana var hvött til að leysa pólitíska fanga úr haldi og henni boðið til viðræðna, meðal annars um mannréttindamál. Ráðherrar sumra aðildarríkjanna vildu ganga lengra og grípa til refsiaðgerða, en ákvörðunum um slíkt var frestað að sinni.

Ráðherrar fyrrum austantjaldslanda voru sérlega harðir í afstöðu sinni gegn ríkisstjórn Kúbu og minntu þeir á að einnig þyrfti að gera áætlun um hvernig ætti að bregðast við óumflýjanlegu fráfalli Kastrós, en hann verður áttræður í ágúst.

Hvað tekur við á Kúbu við lát Kastrós er allsendis óljóst. Víst þykir að umbreytingar verði á stjórnarháttum þar á bæ, en hversu róttækar þær breytingar verða er annað mál. "Mikilvægt er að undirstrika að Kastró muni ekki ríkja að eilífu," sagði utanríkisráðherra Tékklands.

ESB ætlar að gera sitt til að koma í veg fyrir áframhaldandi einræðisstjórn á Kúbu, en margir óttast að Raúl, yngri bróðir Kastrós, hafi hug á að taka við stjórnartaumunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×