Erlent

Guevara malar gull í Bólivíu

Ernesto Che guevara Byltingarmaðurinn er vinsæll sem aldrei fyrr í Rómönsku Ameríku.Nordicphotos/afp
Ernesto Che guevara Byltingarmaðurinn er vinsæll sem aldrei fyrr í Rómönsku Ameríku.Nordicphotos/afp

Minningu byltingar­foringjans Che Guevara á að nýta í anda einkaframtaks og markaðshyggju. Á heimasíðu Reuters-fréttastofunnar er greint frá því að í Bólivíu ætli frumkvöðlar í ferðamannaþjónustu að sækja inn á markað "vinstri-túrisma" með því að leggja vegarslóða sem kenndur verður við dvöl Guevaras í Bólivíu.

Che ætlaði sér að steypa stjórn Bólivíu og koma á kerfi svipuðu því sem hann barðist fyrir á Kúbu, þegar bandaríska leyniþjónustan lét Bólivíumenn taka hann af lífi árið 1967.

Mikil vinstrisveifla ríkir nú í stjórnmálum Rómönsku Ameríku og var það eitt fyrsta verk Evo Morales, nýkjörins forseta Bólivíu og vinar Fídels Kastró, að hengja upp gríðarstóra mynd af Che á skrifstofu sinni. Það eru hins vegar sjálfstæðir athafnamenn, alls ótengdir forsetanum, sem ætla sér að selja ferðamönnum minningu Guevaras.

Til stendur að sameina ævintýralega pílagrímaferð og náttúruskoðun um stórskorin einangruð fjallasvæði sem hafa verið meira og minna ósnert síðan Che reið þar um héruð. Einnig skulu endurgerðar herbúðir byltingarmannanna og farið í skoðunarferðir um fangaklefa og hótelherbergi.

Athafnamennirnir segjast ekki gera þetta af hugsjón, heldur sjái þeir einfaldlega "glitta í gull ferðamannanna".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×