Fjórir leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt. San Antonio lagði Sacramento á útivelli, Philadelphia lagði New Orleans, Utah sigraði Milwaukee og Golden State vann New Jersey, þar sem Vince Carter meiddist í baki og gat aðeins spilað hálfan leikinn.
San Antonio valtaði yfir Sacramento í fyrstu þremur fjórðungum leiksins í nótt, sem var sýndur í beinni útsendingu á NBA TV, en þegar liðið hvíldi byrjunarliðsmennina í fjórða leikhlutanum náði Sacramento að búa til smá spennu í lokin. San Antonio náði þó að klára dæmið 96-93. Tony Parker skoraði 23 stig í leiknum og Tim Duncan var með 22 stig og 19 fráköst. Hjá Sacramento var Mike Bibby bestur með 33 stig.
Philadelphia lagði New Orleans 103-91. Allen Iverson skoraði 24 stig, öll í fyrri hálfleik og gaf 9 stoðsendingar, en David West skoraði 30 stig og hirti 9 fráköst fyrir New Orleans.
Andrew Bogut, nýliði Milwaukee sem valinn var númer eitt í nýliðavalinu í sumar, sneri aftur í Háskólafylki sitt Utah í nótt við frábærar undirtektir í Delta Center í Salt Lake City. Leikmenn Utah Jazz tóku þó ekki eins rausnarlega á móti nýliðanum ástralska og félögum hans í Milwaukee og sigruðu 100-80. Gordan Giricek skoraði 18 stig fyrir Utah og nýliðinn Deron Williams skoraði 10 stig og gaf 10 stoðsendingar, en Michael Redd var atkvæðamestur í liði Milwaukee með 25 stig.
Að lokum sigraði Golden State lið New Jersey 100-97. Miklu munaði um fjarveru Vince Carter hjá New Jersey, en hann meiddist í fyrri hálfleik og óvíst er hvort hann verður með í næstu leikjum. Richard Jefferson skoraði 23 New Jersey og Nenad Krstic skoraði 21 stig og hirti 10 fráköst, en Jason Richardson skoraði 25 stig fyrir Golden State.