Reggie Miller fær treyju sína hengda upp í rjáfur á heimavelli Indiana Pacers þann 31. mars næstkomandi í virðingarskyni fyrir farsælan feril hans, en Miller lék öll átján ár sín í deildinni með félaginu.
Miller lagði skóna á hilluna í vor, en hann var fimm sinnum valinn í stjörnulið NBA og skoraði flestar þriggja stiga körfur allra leikmanna í sögu NBA. Hann verður fjórði leikmaður liðsins til að fá treyju sína hengda upp í rjáfur.
Miller starfar nú sem sjónvarpsþulur hjá TNT og var til að mynda á leik Miami og Indiana í nótt, sem var sýndur í beinni útsendingu á NBA TV sem áskrifendur Digital Ísland geta nú séð allan sólarhringinn.