
Sport
Messi orðinn leikfær með Barcelona

Argentínska undrabarnið Lionel Messi hjá Barcelona er loksins orðinn leikfær með liðinu í deildarkeppninni, eftir að hann fékk spænskan ríkisborgararétt í dag. Hingað til hefur hann aðeins geta leikið með liðinu í Evrópukeppni, því félög á Spáni geta aðeins teflt fram þremur "útlendingum" í hópnum í deildarleikjum. Hinn átján ára gamli leikmaður hefur verið í röðum Barcelona síðan hann var þrettán ára gamall, en erfiðlega hefur gengið að fá spænskan stimpil á hann þangað til nú. Messi hefur verið kallaður hinn nýji Maradona og gerði nýverið samning við félagið til ársins 2014 og er með klásúlu í samningi sínum sem gerir hann ófáanlegan fyrir minna en 150 milljónir evra.