Innlent

Olís á eitt eftir að greiða sekt

Olís hafði skömmu fyrir hádegið ekki greitt sekt sína til ríkissjóðs vegna ólöglegs verðsamráðs olíufélaganna, en Esso fylgdi í gær fordæmi Skeljungs og greiddi sína sekt. Skeljungur greiddi sína sekt á gjalddaga í fyrradag. Stjórnendur Kers tóku ákvröðun um greiðslu eftir að hafa fengið formlega synjun á því frá fjármálaráðuneytinu að leggja fram bankatryggingu fyrir upphæðinni þar sem málið ætti eftir að fara fyrir dómstóla. Olís er því eina félagið sem ekki hefur greitt sína sekt, en sameiginlegar sektir sem lagðar voru á félögin með ákvörðun áfrýjunarnefndar í janúar nema um einum og hálfum milljarði króna. Þar af á Olís að greiða mest. Talsmenn félagsins vilja fá formlegt svar frá Samkeppnisstofnun líka um það hvort bankatrygging dugi eða ekki. Umsjónarmaður með kröfunni er hins vegar ríkisféhirðir sem grípa mun til innheimtuaðgerða lögum samkvæmt ef félagið greiðir ekki sektina og mun þá koma til fjárnáms í félaginu. Í viðtali við Morgunblaðið útilokar Gísli Baldur Garðarsson, lögmaður Olís, ekki að félagið muni höfða mál og krefjast bóta vegna fjármagnskostnaðar ef bankaábyrgð verður ekki talin duga fyrir sektinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×