Eldur í fjölbýli

Allt tiltækt lið slökkviliðsins var kallað út laust fyrir klukkan 10 í gærmorgun vegna elds í fjölbýlishúsi við Þverbrekku 4 í Kópavogi. Minni hætta reyndist þó á ferðum en virtist í fyrstu, en reyk lagði upp úr þaki hússins. Guðmundur Halldórsson, stöðvarstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, segir menn hafa óttast að kviknað væri í efstu hæðinni, en eldurinn reyndist hins vegar eiga upptök sín í ruslageymslu í kjallara. Reyk lagði hins vegar upp um loftræstirör og út um túður á þakinu. Slökkvistarfið gekk vel og var byrjað að reykræsta húsið upp úr klukkan 10, auk þess sem slökkvilið skýrði íbúum frá því hvað á gengi. Eldsupptök eru í rannsókn.