Innlent

Enginn árangur af fundinum

Enginn árangur náðist á fundi samninganefnda grunnskólakennara og sveitarfélaga í Karphúsinu í dag. Annar fundur hefur verið boðaður klukkan tíu í fyrramálið. Þetta er þriðji dagurinn í röð sem deilendur funda hjá ríkissáttasemjara. Enginn afgerandi bjartsýnistónn var þó í mönnum fyrir fundinn. Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, sagði að fulltrúar kennara myndu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að flýta fyrir lausn deilunnar, án þess þó að missa sjónar á takmarki sínu. Stærstu málin eru eftir. Þau mál eru kennsluskyldan og launaliðirnir, helsti ásteytingarsteinn deilenda. Fimm klukkustundum síðar kom enda í ljós að fundurinn bar lítinn árangur. Hann var enginn sagði Eiríkur í samtali við fréttastofu rétt fyrir fréttir. Undir það tekur Birgir Björn Sigurjónsson, formaður samninganefndar Launanefndar sveitarfélaganna, en bendir á að umræður um vinnutímann hafi tekið tvær vikur og því sé ekkert óeðlilegt að launamyndunarumræðan fari hægt af stað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×