Innlent

Forseti hækkar um 20%

Gert er ráð fyrir að útgjöld embættis forseta Íslands hækki um 20,6% á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Fjárveiting til forsetaembættisins verður 154,4 milljónir króna á næsta ári sem er hækkun um tæpar 26 milljónir króna frá fjárlögum yfirstandandi árs. Í athugasemdum með fjárlagafrumvarpinu er bent á hve erfitt sé að meta kostnað við opinberar heimsóknir enda sé aðdragandinn einatt skammur. Síðan segir: "Þá hafa vinnuheimsóknir forseta og forsetahjóna orðið sífellt veigameiri þáttur innan þessa liðar undanfarinn áratug." Þótt útgjöld forsetans samkvæmt fjárlagafrumvarpi hækki um 20% er munurinn á áætluðum útgjöldum 2005 og síðasta ríkisreikningi sem fyrir liggur, frá 2003 aðeins -1.5%. Það ár fóru útgjöld forsetaembættisins hins vegar allverulega fram úr upphaflegum fjárlögum miðað við nýbirtan ríkisreikning. Þau áttu að vera 124.3 milljónir króna 2003 en urðu 156.8 milljónir samkvæmt ríkisreikningi. Munar þar 32.5 milljónum króna og er framúrkeyrslan 26.8%. Segir í fjárlagafrumvarpinu að undanfarin ár hafi nokkru munað á fjárveitingum til forsetaembættisins og niðurstöðutölum útgjalda úr ríkisreikningi og hafi sú skekkja verið leiðrétt í fjáraukalögum. Útgjöld forsetaembættisins hafa hækkað um 36.3% frá því Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti Íslands árið 1996. Samkvæmt ríkisreikningi það ár voru útgjöld embættisins (reiknuð á núvirði) 113 milljónir og hefur þá verið tekið tillit til opinberra heimsókna sem þá voru sérstakur fjárlagaliður. Einnig hefur stofnkostnaður við Staðastað, skrifstofur forsetaembættisins við Sóleyrjargötu verið dregnar frá. Aukningin miðað við fjárlagafrumvarpið 2005 er rúm 36 prósent.  Gert er ráð fyrir að útgjöld embættis forseta Íslands hækki um 20,6% á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Fjárveiting til forsetaembættisins verður 154,4 milljónir króna á næsta ári sem er hækkun um tæpar 26 milljónir króna frá fjárlögum yfirstandandi árs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×