Innlent

159 fötluð börn í skóla í dag

159 fötluð börn hefja aftur skólagöngu í dag eftir að undanþágunefnd kennara og sveitarfélaganna veitti fimm skólum undanþágu til kennslu á föstudag. "Undanþágan breytir fyrst og fremst því að lífið kemst aftur í eðlilegt horf. Miklu skiptir að rútína hans verði aftur eðlileg," segir Sunna Halldórsdóttir, móðir Kára Freys Þorfinnssonar, sex ára, sem hóf nám í Öskjuhlíðarskóla í haust. Móðir Sunnu kom vestan af fjörðum til að hlaupa undir bagga og gæta Kára Freys á morgnana á meðan kennaraverkfallinu stæði. Eftir hádegi fór Kári Freyr síðan í dagvistun eins og hann er vanur. Sunna segir allt verða mikið betra þegar Kári getur farið aftur í skólann enda sé hann ekki einn af þeim sem getur setið kyrr fyrir framan sjónvarp eða tölvu heldur þurfi alltaf að hafa ofan af fyrir honum. Undanþágurnar fengu Safamýrarskóli, Öskjuhlíðarskóli, Brúarskóli fyrir nemendur Stuðla og barna- og unglingadeildar Landspítalans, skóli fyrir börn með félagsleg, geðræn og hegðunarleg vandkvæði í Vestmannaeyjum og Kleppjárnsreykjaskóli fyrir nemendur meðferðarheimilisins að Hvítárbakka. Ellefu beiðnum um undanþágur var hafnað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×