Innlent

Fundur fram á kvöld

Ekkert hefur miðað í samningsátt í kennaradeilunni, en fundir hafa þó staðið yfir frá hádegi og standa líklega fram eftir kvöldi. Ríkissáttasemjari segir enn langt á milli deilenda. Fundir hófust klukkan eitt í dag, og hafa staðið linnulaust fram eftir degi. Í gær, á fyrsta fundi eftir vikuhlé, fannst umræðugrundvöllur í ákveðnum ágreiningsefnum sem hafa verið rædd nánar í dag, eitt af því er vinnutími kennara. Menntamálaráðherra hefur ákveðið að fresta samræmdum prófum í íslensku og stærðfræði í 4. og 7. bekk, vegna verkfallsins. Prófin átti að halda 14. og 15. október. Þegar skólinn hefst að nýju verður ákveðið hvenær prófin verða haldin, en það verður að minnsta kosti ekki fyrr en tvær kennsluvikur eru liðnar frá lokum verkfalls. Undanþágunefnd vegna kennaraverkfallsins kom saman til fundar um fimm leytið, en í dag átti að koma í ljós hvort verkfallið væri orðið nógu langt til að neyðarástand teldist hafa skapast vegna kennslu fatlaðra barna. Taka átti afstöðu til fjögurra endurnýjaðra beiðna með tilliti til þessa, en samtals liggja nú sautján beiðnir fyrir nefndinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×