Viðskipti innlent

Seðlabankinn bregðist rangt við

Greiningardeild Íslandsbanka segir hættu á að Seðlabankinn bregðist rangt við lækkunum bankanna á vöxtum húsnæðislána. Lítið sé þó hægt að gera til að koma í veg fyrir það því enginn viti í raun hvaða áhrif þessar vaxtalækkanir hafi á hagkerfið. Eiríkur Guðnason Seðlabankastjóri sagði í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 fyrir skömmu að það væri fagnaðarefni að vextir langtímalána lækki í landinu. Bankinn hafi lengi undrað sig á því hversu háir vextir hafi þurft að vera hér. Eiríkur sagði þó að viss hætta sé á aukinni þenslu og verðbólgu og bankinn muni fylgjast grannt með. Greining Íslandsbanka telur hins vegar að svo kunni að fara að bankinn bregðist rangt við vaxtalækkunum bankanna á húsnæðislánum. Það gæti gerst vegna mikillar óvissu, engin fordæmi séu fyrir aðgerðum sem þessum hér á landi og bankinn þekki ekki hvaða áhrif lánin munu að endingu hafa á eftirspurn í hagkerfinu, gengi krónunnar og verðbólgu. Um leið þurfi bankinn að vera framsýnn í ákvörðunum sínum og taka tillit til þess ástands sem líklegast mun verða uppi á næsta ári eða þegar áhrifin af þessum breytingum verða líklegast komin fram. Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningar Íslandsbanka, segir það versta sem geti gerst sé að Seðlabankinn hækki of mikið eða of lítið, eða, bregðist einfaldlega rangt við. Hann segir að líta verði til þess að aðgerðir Seðlabankans hafi ekki áhrif fyrr en eftir marga mánuði. Bankinn verði því með aðgerðum sínum núna að reyna að átta sig á því hvaða áhrif þetta hafi á verðbólguna í framtíðinni. Aðspurður hvað hægt sé að gera til að reyna að koma í veg fyrir að Seðlabankinn bregðist rangt við segir Ingólfur í rauninni lítið hægt að gera  Hægt er að hlusta á viðtal við Ingólf Bender úr hádegisfréttum Bylgjunnar með því að smella á hlekkinn hér að neðan.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×