Al-Sadr fær lokafrest

Iyad Allawi, sem gegnir stöðu forsætisráðherra Íraks, hefur gefið öfgaklerknum Muqtada al-Sadr lokafrest til að yfirgefa Imam Ali moskuna í Najdaf og fyrirskipa hersveitum sínum að leggja niður vopn. Al-Sadr hafði fallist á vopnahlé í gær en setti síðan fram ýmsar kröfur sem ekki var hægt að ganga að. Á fréttamannafundi í morgun kom fram að yfirvöld telja að öllum friðsamlegum leiðum til úrlausnar hafi verið beitt og að nú verði al-Sadr að uppfylla þau skilyrði sem hann gekkst inn á í gær. Öðrum kosti sé komið að ögurstundu og dagar hans séu taldir. Al-Sadr vill hins vegar viðræður og að samið verði um hvernig uppgjöf liðs hans fer fram.