Bjartsýnin meiri án fjölmiðlamáls
Væntingavísitala Gallups hækkaði í júlí eftir samfellda lækkun frá í mars. Væntingavísitalan mælist nú 115,6 stig, en bjartsýning reis hæst í mars á þessu ári þegar vísitalan mældist tæp 133 stig. Lækkun vísitölunnar síðustu mánuði á undan skýrðist af aukinni svartsýni um efnahags og atvinnuástand að sex mánuðum liðnum. Nú horfa fleiri til betri tíðar með blóm í haga. Greining Íslandsbanka veltir fyrir sér ástæðum breytinganna nú. Krónan hafi styrkst að undanförnu, en sterk fylgni virðist milli gengisþróunar og væntinga. Styrking krónu eykur bjartsýni. Þá er á það bent að verðbólga hjaðnaði milli júní og júlí. Þessir þættir eru að mati greiningardeildarinnar til þess fallnir að auka bjartsýni. Greining Íslandsbanka telur hins vegar að pólitísk óvissa í kringum fjölmiðlamál hafi verið neikvæð fyrir bjartsýni þjóðarinnar. Af því má draga þá ályktun að bjarsýnin hefði vaxið meira ef hefðbundins frís frá stjórnmálum hefði notið við.