Viðskipti innlent

Hagnaður Össurar tvöfaldast

Stoðtækjafyrirtækið Össur jók hagnað sinn verulega á öðrum ársfjórðungi og tvöfaldaði hann á milli ára samkvæmt uppgjöri sem kynnt var í morgun. Rekstrarhagnaður Össurar á öðrum ársfjórðungi var 5,6 milljónir Bandaríkjadala, eða 409 milljónir íslenskra króna, og jókst hann um rúmlega 120 % á milli ára. Í fréttatilkynningu, sem stoðtækjafyrirtækið sendi frá sér vegna uppgjörsins fyrir annan ársfjórðung, segir að sala á tímabilinu hafi numið 2,3 milljörðum króna, eða rúmlega 30 milljónum dala, samanborið við tæplega 23 milljónir dala í fyrra. Rekstur Össurar á öðrum ársfjórðungi gekk vel, og hefur í heild gengið vel, þar sem engir óvenjulegir kostnaðarliðir hafa fallið til. Í uppgjörinu kemur fram að það sem einkenni ársfjórðunginn öðru fremur sé mikil söluaukning á þremur af fjórum helstu markaðssvæðum fyrirtækisins. Ennfremur sé jákvætt að sala á Bandaríkjamarkaði sé vaxandi. Meðfylgjandi mynd er af Jóni Sigurðssyni, forstjóra Össurar hf.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×