
Fréttir

Ísraelsk kona lætur lífið í eldflaugaárás
Palenstínskir vígamenn skutu eldflaugum frá Gaza svæðinu í dag og urðu ísraelskri konu að bana og særðu tvo í ísraelska landamærabænum Sderot. Ísraelsk yfirvöld segjast ætla að gera allt sem í valdi sínu stendur til þess að ná þeim sem eru ábyrgir.

Bush og Putin funda
George W. Bush Bandaríkjaforseti og Vladimir Putin Rússlandsforseti áttu "ótrúlega góðan" fund í dag. Bush er sem stendur á ferðalagi til Asíu en kom við í Moskvu til þess að fylla á flugvél sína. Putin kom þá við á flugvellinum til þess að heilsa upp á Bush og ræða við hann um væntanlega inngöngu Rússa í Alþjóðaviðskiptaráðið.

Bílslys undir Eyjafjöllum
Bílslys varð nú í kvöld undir Eyjafjöllum en tveir ungir Englendingar voru þar á ferð. Flughálka var á staðnum og misstu þeir stjórn á bílnum þar sem þeir komu að brúnni yfir Holtsá. Fór bíllinn yfir varnargarð og út í ánna og er hann talinn gjörónýtur. Mennirnir tveir skárust tölvuvert á höfði en annars er líðan þeirra góð eftir atvikum.

Mannréttindaráð SÞ fordæmir mannréttindabrot Ísraela á Gaza
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðana fordæmdi í dag mikil og skipulögð mannréttindabrot Ísraels á Gaza svæðinu og sendi þangað sendinefnd til þess að rannsaka lát 19 óbreyttra palenstínskra borgara í Beit Hanoun í síðustu viku.

Breytinga þörf á Akureyrarflugvelli
Akureyrarbær og KEA hafa boðist til þess að reiða fram fé til að hægt verði að lengja flugbrautina á Akureyrarflugvelli gegn því að ríkið endurgreiði þeim seinna.

Bandaríski herinn hugsanlega farinn frá Írak innan árs
Bandaríski yfirhershöfðinginn í Írak, John Abizaid, sagði í dag að það gæti tekið skemmri tíma en áður var haldið að þjálfa upp íraska herinn. Áður hafði verið talað um að minnsta kosti eitt ár í viðbót en hann telur að verkefninu gæti verið lokið á undir einu ári.

Þungfært á Öxnadalsheiði
Ófært um Víkurskarð og Öxi og þungfært á Öxnadalsheiði. Á Norður og Norðausturlandi er víðast hvar stórhríð.

Ísraelsk herþyrla gerir árásir á Gaza
Ísraelsk herþyrla skaut rétt í þessu tveimur loftskeytum á hús í palenstínska hluta Gaza svæðisins, samkvæmt frásögnum sjónarvotta. Íbúar sögðu að einhverjir hefðu slasast og hugsanlega látið lífið í árásinni á Shathi flóttamannabúðirnar en það fékk ekki staðfest. Talsmaður ísraelska hersins hafði ekkert um málið að segja að svo stöddu.

Dómsmálaráðherra svaraði ekki fyrirspurnum um hleranir
Dómsmálaráðherra svaraði ekki í fyrirspurnartíma á Alþingi spurningum Kristins H. Gunnarssonar þingmanns Framsóknarflokksins um hleranir á símum Alþingismanna, ástæður hleranna og hvenær þær hefðu tengst rannsókn sakamála. Ráðherrann sagði ótækt að yfirvöld tækju frumkvæði að því að birta nöfn þingmannanna með tilliti til einkalífshagsmuna þeirra.

Flóðbylgjur í Japan reyndust 20 til 40 sm háar
Öflugur jarðskjálfti reið yfir Kúríleyjar norður af Japan í dag. Flóðbylgjuviðvörun var þegar gefin út af ótta við að öflug flóðbylgja myndi skella á norður- og austurströndum Japans og jafnvel ná að Kyrrhafsströnd Rússlands. Flóðbylgjurnar sem skullu síðan á japönsku eyjunni Hokkaídó voru mun minni en óttast var og eru þær sagðar hafa mælst 20 til 40 sentrimetrar á hæð.

Fyrrum aðalendurskoðandi Enron fundinn sekur um bókhaldssvik
Bandarískur dómari dæmdi í dag fyrrum aðalendurskoðanda Enron, Richard Causey, í fangelsi í 66 mánuði, eða fimm og hálft ár, þar sem það var hann sem samþykkti hin miklu bókhaldssvik sem leiddu til falls fyrirtækisins.

Bandarískur hermaður játar nauðgun og morð
Bandarískur hermaður hefur játað að hafa nauðgað 14 ára gamalli íraskri stúlku og hjálpað til við að myrða hana og fjölskyldu hennar. Lögfræðingur hans sagði að hann hefði játað á sig morðið til þess að reyna að komast hjá dauðrefsingunni. Hermaðurinn er einn fjögurra sem tóku þátt í verknaðinum.

SUS ályktar um Árna Johnsen
Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna sendi í kvöld frá sér ályktun þar sem skorað er á Árna Johnsen að sýna auðmýkt þegar hann talar um þau brot sem hann var sakfelldur fyrir í starfi sínu sem þingmaður.

Samstarfsörðugleikar í írösku ríkisstjórninni
Íraska ríkisstjórnin hefur skipst í tvær fylkingar vegna örlaga fólksins sem var rænt í mannráninu í gær. Segja margir þeirra að vígahópar öfgatrúarmanna hafi sýnt að ástandið í Írak er ekki jafngott og sumir vilja vera láta.
Líknarsamtök fá 20% af sölu
Líknarsamtök, eins Samhjálp og Fjölskylduhjálpin, fá í sinn hlut 20% af sölu hljóð- og mynddiska sem seldir eru í símasölu í þeirra nafni. Fyrirækið BM ráðgjöf sem sér um sölustarfið segir að tap hafi verið á þessu starfi þrátt fyrir þessi hlutaskipti.

Ekki á döfinni að flytja Landhelgisgæsluna til Keflavíkur
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, sagði við utandagskrárumræðu á Alþingi í dag að það væri ekki útilokað að flugstarfssemi Landhelgisgæslunnar verði flutt til Keflavíkur. Sagði hann þó að það væri ekki forgangsverkefni og að nú væri mikilvægasta verkefnið að huga að ytri umgjörð starfssemi Landhelgisgæslunnar.

Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar afhent í þriðja sinn
Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar voru afhent í þriðja skipti við athöfn á Hótel Holti í dag, miðvikudaginn 15. nóvember. Landnámssetur Íslands hlaut verðlaunin að þessu sinni fyrir vel útfærðar og vandaðar sýningar sem efla ímynd Íslands og eru til þess fallnar að efla ferðaþjónustu utan hins hefðbundna tímabils.

Bandaríkin tilbúin til viðræðna við Íran vegna Íraks
David Satterfield, háttsettur ráðgjafi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og umsjónarmaður málefna Íraks, sagði í dag að Bandaríkin væru tilbúin í viðræður við Íran varðandi ástandið í Írak en hvenær það myndi gerast væri óvíst.

Bráðabirgðaúrslit kosninga voru birt í Austur-Kongó í dag
Bráðabirgðaúrslit kosninga voru birt í Austur-Kongó í dag. Samkvæmt þeim sigraði núverandi forseti landsins, Joseph Kabila, mótframbjóðanda sinn, Jean-Pierre Bemba, með 58% gegn 42% eftir að talningu allra atkvæða var lokið.

Rússar vilja að Saddam lifi
Neðri deild rússneska þingsins varaði í dag við því að aftaka Saddams Hussein gæti enn aukið á ofbeldið í Írak.

Verið að endurskoða reglur um flutning fanga
Lögreglan leitar enn Ívars Smára Guðmundssonar fanga af Litla Hrauni sem strauk í gær frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Fangelsismálastjóri segir að ekki hafi verið talin ástæða til að hafa fangann í handjárnum. Reglur um flutning fanga eru nú í endurskoðun.
Svikin lyf ógna mannslífum í fátækum ríkjum
Um þrjátíu prósent lyfja sem seld eru í sumum fátækari löndum heims eru lyfleysur sem gera ekkert gagn og geta jafnvel skaðað þá sem taka þær.

Krónan veiktist á ný
Gengi krónunnar veiktist um 1,2% við lokun markaða í dag. Síðastliðna tvo daga hefur krónan veikst um nær 3% og styrking síðustu 6 vikna hefur því gengið til baka á aðeins tveimur dögum.
Nauðguðu og myrtu í Írak
Bandarískur hermaður hefur játað að hafa nauðgað fjórtán ára gamalli íraskri stúlku og hjálpað svo til að myrða hana og þrjá ættingja hennar.

Rektor Bifrastar hlaut umbeðinn stuðning
Um sjötíu prósent viðstaddra nemenda og starfsfólks í Háskólanum á Bifröst lýsti í dag yfir stuðningi við Runólf Ágústsson, rektor skólans. Atkvæðagreiðslan fór fram á fundi, sem haldinn var rétt í þessu á háskólasvæðinu á Bifröst, vegna óánægju sem verið hefur verið innan skólans með störf rektors.

Um tvö hundruð hafa svarað kalli Blóðbankans
Um tvö hundruð manns hafa svarað kalli Blóðbankans og gefið blóð í dag en skortur hefur verið á blóði í bankanum. Sigríður Ósk Lárusdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Blóðbankanum, segir starfsfólk þakklát fyrir góð viðbrögð en enn vanti þó blóð.

Hverjir rændu hverjum og hvers vegna ?
Ringulreiðin í Írak er slík að stjórnvöld virðast ekki hafa hugmynd um hversu mörgum mönnum var rænt úr menntamálaráðuneyti landsins í gær, né hversu margra er enn saknað. Menntamálaráðherrann er hættur þáttöku í ríkisstjórn Íraks, þartil gíslunum hefur verið sleppt.

Kosið um hvort rektor hafi stuðning
Nemendur og stjórnendur Háskólans á Bifröst funda nú vegna óánægju sem verið hefur með störf Runólfs Ágústssonar, rektors skólans. Að tillögu rektors er nú verið að greiða atkvæði um það hvort rektor njóti fulls stuðnings nemenda.

Geimhænsni Kentucky Fried
Kjúklingaveitingastaðurinn Kentucky Fried Chicken hefur breytt aðeins vörumerki sínu og í tilefni af því hefur verið gerð risastór mynd af Sanders ofursta á jörðinni, í Nevada fylki. Það er sagt fyrsta vörumerkið sem sést utan úr geimnum.

Dómsmálaráðherra neitaði að svara fyrirspurn á Alþingi
Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, var gagnrýndur á Alþingi í dag þegar hann neitaði að svara fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar, þingmanns Framsóknarflokksins. Kristinn vildi vita hversu oft símar Alþingismanna hafi verið hleraðir fyrir atbeina íslenskra stjórnvalda, hvenær það hafi gerst, hverjir hafi verið hleraðir og hver ástæðan var fyrir hleruninni.