Skoðun

Hvert stefnum við?

Jasmina Vajzović skrifar

Íslenskt samfélag hefur lengi byggt sjálfsmynd sína á réttlætiskennd, jafnræði og mannúð. En undanfarin ár hefur orðið áberandi gliðnun í þessum grunngildum. Umræða um flóttafólk og innflytjendur hefur harðnað, vantraust gagnvart opinberum stofnunum hefur dýpkað og siðferðileg ábyrgð virðist hafa orðið valfrjáls. Þetta eru ekki stök atvik heldur kerfisbundin þróun. Fyrirlitning á flóttafólki og innflytjendum er ekki lengur bundin við jaðarhljóma – hún er orðin að „viðurkenndri“ skoðun í almennri umræðu. En skoðanir sem afmennska fólk eru ekki saklausar. Þær hafa afleiðingar.

Í könnun Maskínu árið 2024 töldu 34% Íslendinga að innflytjendur væru „of margir“. Engar staðreyndir styðja þá trú. Hagstofan og OECD sýna að innflytjendur leggja meira fjárhagslegt og félagslegt framlag en kostnað og eru lykilþátttakendur í velferðarkerfi sem nú treystir á innflytt vinnuafl. Samt hefur orðræða um innflytjendur og flóttafólk orðið að pólitísku verkfæri sem réttlætir útilokun. Þegar fólk er nefnt „álag“, „kostnaður“, „öryggismál“ eða „ógn“ hættir það að vera manneskja í augum annarra. Þetta er klassískt mynstur úr félagsfræði fordóma: afmennskun er fyrsta skrefið í að réttlæta mismunun.

Á sama tíma heyrum við sífellt frasana: „Ég má hafa mína skoðun.“ Það er rétt, en skoðun sem byggir á því að draga úr rétti annarra til virðingar, öryggis eða tilveru er ekki lengur persónuleg skoðun. Hún er samfélagsleg aðgerð. Þegar einstaklingur notar „skoðun“ til að réttlæta að sumir séu minna virði en aðrir, hættir umræða að vera saklaus. Hún verður að pólitískri hreyfingu sem normalíserar mismunun. Skoðun er frjáls. Afleiðingar hennar eru það ekki.

Það er líka mikilvægt að nefna það sem margir forðast: Að geta haft skaðlegar skoðanir án þess að bera afleiðingar er forréttindi. Sá sem hefur aldrei þurft að sanna rétt sinn til að tilheyra samfélagi sér ekki hversu djúpt skaðlegt það er að gera manneskjur að „vandamáli“. Þetta er ekki tilfinningamál. Þetta er staðfest í rannsóknum WHO og OECD á líðan innflytjenda: kerfisbundin vanvirðing hefur bein áhrif á heilsu, menntun, atvinnuþátttöku og félagslega þátttöku. Fordómar búa til kostnað. Virðing býr til samfélag.

Samt erum við komin lengra en orð. Þetta er ekki lengur bara viðhorf heldur stefnumótun sem við framfylgjum með lögum. Í nýju frumvarpi stjórnvalda um móttöku fólks á flótta er horfið frá hugmyndinni um vernd og mannlega reisn yfir í kerfi sem speglar fangageymslu. Í texta frumvarpsins kemur orðið „fangaverðir“ fyrir tugum sinnum. Fólk á flótta, þar með börn, sem hefur ekkert brotið af sér, er sett í vistun sem líkist fangabúðum að formi og hugmyndafræði.Í umræðuni á Alþingi það var enginn sem stóð upp og mótmælti því. Enginn spurði hvað það þýðir fyrir mannréttindi. Enginn sagði einfaldlega: „Þetta er rangt.“ Þeir sem hafa flaggað mannréttindum sem sínum gildum eru nú orðnir tilbúnir að afnema þau - nema þegar réttindin nýtast þeim sjálfum.

Á sama tíma hefur vantraust á Alþingi og embættisvaldi aukist hratt. Samkvæmt Eurobarometer 2023 treystir aðeins lítill hluti landsmanna stjórnmálum og löggæslu. Í stað þess að verða til kröfur um meiri ábyrgð hefur almenningur hætt að trúa því að ábyrgð skipti máli. Þegar óhæfir einstaklingar halda áfram í embættum eða færast einfaldlega milli valdastöðu án afleiðinga, þá er skilaboðið skýrt: ábyrgð er ekki lengur krafa heldur valkostur. Það grefur undan lýðræðinu innan frá.

Samfélag hrynur ekki á einum degi. Það smábrotnar þegar við hættum að sjá manneskjuna í náunganum, þegar við sættum okkur við vald sem ekki þarf að skýra sig og þegar fyrirlitning verður venjubundin. Þetta byrjar með orðræðu. Svo hegðun. Svo stefnumótun. Svo lögum. Sagan er full af viðvörunum. Þær eru ekki fjarlægar. Þær eru hér.

Viljum við vera samfélag sem metur virði manneskju út frá uppruna eða gagnsemi? Eða samfélag sem áttar sig á að manneskja hefur virði vegna þess að hún er manneskja?

Það er auðvelt að tala um gildi. Erfiðara að lifa þau. Orð og gjörðir þurfa að tala sama tungumálið. Það er þar sem gildi okkar koma í ljós. Þannig byggjum við traust – og þannig byggjum við sterkara samfélag og sterkara lýðræði. Hitt er bara lýðskrum og siðferðisleg gjalþrott.

Höfundur er stjórnmálafræðingur, samfélagsrýnir og rödd þeirra sem byggja líf á nýjum stað.




Skoðun

Sjá meira


×