Sport

„Erum við bara dýr í dýra­garði?“

Sindri Sverrisson skrifar
Iga Swiatek var vonsvikinn þegar hún féll úr keppni í Melbourne í dag.
Iga Swiatek var vonsvikinn þegar hún féll úr keppni í Melbourne í dag. Getty/Lintao Zhang

Iga Swiatek, næstefsta kona heimslistans í tennis, kom Coco Gauff til varnar þegar hún ræddi við blaðamenn eftir að hafa fylgt á eftir Gauff úr keppni á Opna ástralska mótinu.

Hin pólska Swiatek tapaði gegn Elenu Rybakina, 7-5 og 6-1, og er því úr leik rétt eins og Gauff sem tapaði fyrir Elinu Svitolina í gær. Það er því mögulegt að hin úkraínska Svitolina mæti Rybakina í úrslitaleik mótsins á meðan að þjóðir þeirra há stríð, en Rybakina er fædd í Rússlandi og keppir nú undir fána Kasakstan.

Swiatek var auðvitað svekkt eftir tap sitt en vildi líka nýta tækifærið til að setja út á umfjöllunina um Gauff frá því í gær. Myndavélarnar eltu hina bandarísku Gauff eftir að hún féll úr leik, inn á gang þar sem hún lét tennisspaðann sinn finna fyrir því og sló honum ítrekað í gólfið.

„Er það bara í búningsklefanum sem að við megum fá að vera í friði á þessu móti?“ spurði hin 24 ára gamla Swiatek.

„Spurningin er, erum við tennisspilarar eða dýr í dýragarði, þar sem fylgst er með þeim líka þegar þau skíta?“ spurði Swiatek, samkvæmt Reuters.

„Allt í lagi, þetta voru auðvitað ýkjur, en það væri fínt að fá smá næði. Það væri gott að fá tíma fyrir sig og vera ekki alltaf í sviðsljósinu,“ sagði Swiatek en fyrr á mótinu hafði myndband af henni einnig farið í dreifingu á netinu, þar sem henni var meinaður aðgangur að mótsstað því hún var ekki með passann á sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×