Lífið

Ráð­herrann brunar af þing­fundi til að horfa á leikinn

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir og Smári Jökull Jónsson skrifa
Þorgerður Katrín var á leik Íslands og Svíþjóðar á sunnudag. Hún sat við hlið Willums Þórs Þórssonar, formanns ÍSÍ og fyrrverandi ráðherra, og Maríu Rutar Kristinsdóttur, þingmanns Viðreisnar og fyrrverandi aðstoðarmanns hennar.
Þorgerður Katrín var á leik Íslands og Svíþjóðar á sunnudag. Hún sat við hlið Willums Þórs Þórssonar, formanns ÍSÍ og fyrrverandi ráðherra, og Maríu Rutar Kristinsdóttur, þingmanns Viðreisnar og fyrrverandi aðstoðarmanns hennar. Vísir/Vilhelm

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra ætlar að bruna af þingfundi Alþingis sem er á dagskrá í dag til að horfa á leik Íslands og Sviss á EM karla í handbolta. 

Þingfundi Alþingis verður ekki frestað vegna leiksins en hann hefst klukkan 13:30 á óundirbúnum fyrirspurnum. Þorgerður verður til taks fyrir fyrsta liðs fundinn en segist ætla að bruna af fundinum til að horfa á leikinn.

Hún er mikill áhugamaður um handbolta, sér í lagi þar sem að Gísli Þorgeir Kristjánsson landsliðsmaður er sonur hennar.

„Leikurinn er hálf þrjú, ég ætla að bruna beint í skjáinn. Neglurnar eru farnar en röddin er komin aðeins aftur. Það er gefinn hálftími í óundirbúnar en svo fer ég eins og hálf þjóðin að horfa á þennan leik,“ sagði Þorgerður að loknum ríkisstjórnarfundi á morgun.

„Mér finnst gott að heyra það að vinnustaðir, þar sem hægt er, hafa sýnt mikinn sveigjanleika og verið að koma upp skjáum og fleira. Þessir leikir í dag gegn Sviss annars vegar og Slóveníu á morgun, við þurfum einfaldlega að vinna þá og þá getum við farið að láta okkur dreyma um næstu hluti. En einn leikur í einu og áfram gakk og áfram Ísland.“

Stórkostlegur tilfinningarússíbani

Þorgerður var viðstödd leik Íslands og Svíþjóðar á Íslandi. Hún segir stemninguna hafa verið stórkostlega.

„Þessi leikur, ég hef verið á mörgum handboltaleikjum í gegnum tíðina, en þetta var tilfinningarússíbani. Mér fannst svo stórkostlegt að sjá þessa liðsheild sem var þarna.“

Um ógleymanlegan sigur hafi verið að ræða en hún stefnir á að halda sig á Íslandi um sinn. Hugurinn leiti þó út.

„Ég er hérna heima núna og ætlaði ekki að fara á neinn leik í milliriðlunum en af því að ég var á leið heim frá Genf og millilenti í Köben þá var gráupplagt að fara á leik. Við sendum strauma yfir hafið, þeir finna það.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.