Innlent

Í­búi þungt haldinn og sjö hundar brunnu inni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sjö hundar drápust í eldsvoðanum.
Sjö hundar drápust í eldsvoðanum. Vísir/Anton Brink

Íbúa í fjölbýlishúsi við Vatnsholt í Reykjanesbæ er haldið sofandi á gjörgæsludeild Landspítalans eftir eldsvoða sem kom upp í íbúð í húsinu í gærkvöldi. Sjö hundar drápust í eldsvoðanum.

Það var klukkan 22:54 í gærkvöldi sem lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning um eld í fjölbýlishúsi í götunni Vatnsholti. Lögregla, sjúkra- og slökkvilið fóru á vettvang á hæsta forgangi.

Þegar fyrstu lögreglumenn komu á vettvang í gær mátti sjá mikinn eld koma frá íbúð á fyrstu hæð hússins. Fjölbýlishúsið er á tveimur hæðum með sex íbúðum. Einn íbúi var enn inni í húsinu en aðrir íbúar hússins komnir út. Skömmu síðar fannst íbúinn og var fluttur með sjúkrabifreið til Reykjavíkur. Hann liggur þungt haldinn á gjörgæsludeild Landspítalans og er haldið sofandi.

Aðrir íbúar, 15 talsins, voru fluttir á öruggan stað skammt frá vettvangi þar sem þau fá stuðning og liðsinni frá starfsmönnum Rauða Krossins. Þar var þeim veitt áfallahjálp. Flestir gátu leitað skjóls í nótt hjá ættingjum en Rauði krossinn á Suðurnesjum aðstoðaði aðra með næturgistingu.

Vettvangsrannsókn er í gangi hjá lögreglunni á Suðurnesjum sem nýtur aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Sjö hundar drápust í eldsvoðanum, einn lifði og einn er ófundinn.

Fréttin er í vinnslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×